Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 80/2014

Mál nr. 80/2014

Fimmtudaginn 10. nóvember 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 31. júlí 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 16. júlí 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 8. ágúst 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 21. ágúst 2014.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 2. september 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 14. janúar 2015. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1972 og er einhleypur. Hann býr í eigin íbúð að B sem er 116 fermetrar að stærð. Kærandi starfar hjá C.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 14. mars 2012, eru 51.873.024 krónur. Kærandi stofnaði til helstu skuldbindinga árin 2007 og 2008.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til veikinda, atvinnuleysis og tekjulækkunar.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 13. mars 2012 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum hans.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 28. maí 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) þar sem kærandi svaraði ekki fyrirspurnum umsjónarmanns um í hvaða farveg mál hans skyldi fara.

Í bréfi umsjónarmanns er rakið að frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun hafi verið lagt fyrir kröfuhafa 21. október 2013. Íslandsbanki hf. hafi mótmælt frumvarpinu en í tölvupósti frá lögmanni bankans 25. nóvember 2013, sem fylgt hafi bréfi umsjónarmanns til kæranda, sé farið fram á að kærandi selji fasteign sína, bæði með vísan til þess að hún væri of dýr í rekstri og að hann væri langt frá því að geta greitt afborganir af henni. Í kjölfarið hafi umsjónarmaður ítrekað reynt að fá bankann til að falla frá afstöðu sinni en án árangurs. Við svo búið hafi umsjónarmaður talið ljóst að samningur um greiðsluaðlögun myndi ekki takast og kæranda hafi því verið kynnt ákvæði 18. gr. lge., bæði með tölvupósti og símleiðis. Í kjölfar þess hafi umsjónarmaður óskað eftir afstöðu kæranda um það hvort hann vildi leita nauðasamninga til greiðsluaðlögunar og eftir atvikum greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði samkvæmt 18. gr. lge. eða afturkalla umsókn sína um greiðsluaðlögun. Kærandi hafi ekki svarað fyrirspurn umsjónarmanns sem hafi verið ítrekuð með tölvupósti og ábyrgðarbréfi þar sem skorað var á hann að lýsa yfir vilja til að neyta úrræða 18. gr. lge. eða afturkalla umsókn sína.

Með vísan til þessa telji umsjónarmaður að fram séu komnar upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. með vísan til 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 25. júní 2014 þar sem honum var kynnt tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans. Þá var kæranda jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Andmæli kæranda bárust með tölvupósti til umsjónarmanns 13. júlí 2014.

Með ákvörðun 16. júlí 2014 felldi umboðsmaður skuldara í framhaldinu niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar. Skilja verður málatilbúnað hans svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi telur fjárhag sinn hafa breyst á þann veg að fullt tilefni sé til að senda kröfuhöfum nýtt frumvarp til greiðsluaðlögunar. Tekjur hans séu um það bil 30.000 krónum hærri en reiknað hafi verið með í frumvarpi, auk þess sem hann hyggist leigja út [...] fyrir 40.000-50.000 krónur á mánuði.

Kærandi vilji eftir fremsta megni forðast að selja fasteign sína, enda séu aðstæður slæmar á leigumarkaði. Með vísan til þess sem fram komi í frumvarpi að lge. um að fasteign eigi ekki að vera seld nema í sérstökum tilvikum og þess að kærandi hafi nú hærri tekjur, telji kærandi umsjónarmann ekki hafa hagað störfum sínum í samræmi við 4. mgr. 17. gr. lge. Ákvæðið geri ráð fyrir því að sé frumvarpi mótmælt skuli umsjónarmaður leitast við að fá lánardrottinn til að endurskoða afstöðu sína, eftir atvikum með því að gera breytingar á frumvarpi í samráði við skuldara.

Í kæru er gerð athugasemd við að Ríkisskattstjóra hafi verið heimilað að draga álagða skatta vegna skattársins 2011 frá launum kæranda.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé eitt helsta markmið greiðsluaðlögunarsamninga að einstaklingum í verulegum fjárhagserfiðleikum sé gert kleift að koma jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu svo að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Þær skyldur verði að leggja á skuldara að hann veiti liðsinni sitt eins og þörf krefji eigi umsjónarmanni að vera unnt að gera drög að raunhæfu frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun.

Kærandi hafi ekki sinnt tilskildu samráði við umsjónarmann samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. þar sem hann hafi hvorki svarað fyrirspurnum umsjónarmanns um það hvort vilji hans stæði til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eftir 18. gr. lge. né hvort hann vildi afturkalla umsókn sína um greiðsluaðlögun. Umsjónarmaður hafi ítrekað leitað eftir afstöðu kæranda vegna þessa á þriggja mánaða tímabili en án árangurs.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi heimild kæranda til greiðsluaðlögunar verið felld niður samkvæmt 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara telur óþarft að taka afstöðu til andmæla kæranda sem lúti að því að mótmæli kröfuhafa væru of seint fram komin og af þeim sökum skyldi frumvarp til samnings um greiðsluaðlögunar teljast samþykkt, enda telji embættið ekki tækt að samþykkja samning til greiðsluaðlögunar án samþykkis kröfuhafa.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Í kæru er óskað álits kærunefndarinnar á heimild Ríkisskattstjóra til að draga álagningu skattársins 2011 frá launum kæranda á meðan frestun greiðslna stóð yfir. Kærunefndin telur að ekki sé á verksviði nefndarinnar að veita álit um slíkt. Af þeim sökum verður ekki fjallað frekar um þessa málsástæðu kæranda.

Í kæru kemur einnig fram að kærandi telji umsjónarmann ekki hafa hagað störfum sínum í samræmi við [3]. mgr. 17. gr. lge. þar sem tekjur kæranda séu nú hærri en gert hafi verið ráð fyrir í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun. Umsjónarmaður eigi því að senda kröfuhöfum nýtt frumvarp á grundvelli hærri tekna kæranda. Kærandi telur einnig að ekki hafi verið fullreynt hvort unnt hafi verið að koma á samningi um greiðsluaðlögun. Hann hafi því ekki notið þess réttar sem kveðið sé á um í 17. gr. lge.

Í 3. mgr. 17. gr. lge. kemur fram að hafi lánardrottinn athugasemdir við frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun eða leggist hann gegn því og ekki komi fram upplýsingar sem valdið geti niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana, skuli umsjónarmaður leitast við að fá lánardrottinn til að endurskoða afstöðu sína, eftir atvikum með því að gera í samráði við skuldara breytingar á frumvarpinu, sem skuli þá sent öðrum lánardrottnum á nýjan leik. Umsjónarmaður skal í hverju tilviki fyrir sig meta hvort efni standi til að gera breytingar á frumvarpi vegna mótmæla kröfuhafa.

Umsjónarmaður sendi frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun fyrir kæranda til kröfuhafa 21. október 2013. Mótmæli Íslandsbanka hf. bárust með tölvupósti 4. nóvember 2013 og lutu að því að fasteign kæranda væri „óhóflega dýr miðað við stöðu hans“ þar sem afborganir af áhvílandi veðlánum innan verðmats og rekstrarkostnaður næmi um 250.000 krónum á mánuði. Þá taldi Íslandsbanki hf. að verðmæti fasteignarinnar væri meira en fasteignamat gæfi til kynna og að í frumvarpi ætti að kveða á um að eignin yrði seld. Umsjónarmaður tilkynnti Íslandsbanka hf. með tölvupósti 14. nóvember að kærandi hefði tekið afstöðu til mótmæla bankans og teldi hann ekki ástæðu til að selja fasteign sína. Þá teldi hann eðlilegt að miðað yrði við þá greiðslubyrði áhvílandi veðkrafna sem fram hefði komið í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun. Kom einnig fram að frumvarpið hefði verið uppfært með tilliti til athugasemda annarra kröfuhafa og óskaði umsjónarmaður eftir afstöðu Íslandsbanka hf. til hins uppfærða frumvarps. Íslandsbanki hf. ítrekaði mótmæli sín með tölvupósti 15. nóvember 2013 og bætti við að bankinn teldi að ekki væru uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 21. gr. lge. um tímabundið lægri mánaðargreiðslur til greiðslu veðkrafna. Í svari umsjónarmanns til Íslandsbanka hf. 25. nóvember 2013 ítrekaði umsjónarmaður afstöðu sína með rökstuddum hætti og var frumvarpinu endanlega hafnað af hálfu Íslandsbanka hf. með tölvupósti sama dag með sömu röksemdum og fram komu í fyrri mótmælum bankans.

Af framangreindum samskiptum verður ekki annað séð en að umsjónarmaður hafi leitast við að fá lánardrottinn til að endurskoða afstöðu sína og auk þess leitað afstöðu kæranda um það hvort hann vildi bregðast við mótmælum bankans og selja fasteign sína. Í kæru kemur fram að kærandi telji tekjur sínar vera hærri en lagt hafi verið til grundvallar í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun. Ekki verður séð af gögnum málsins að kærandi hafi vakið athygli á því við meðferð málsins hjá umsjónarmanni eða umboðsmanni skuldara að hann teldi að frumvarpið gæfi ekki rétta mynd af tekjum eða fjárhag hans að öðru leyti. Að framangreindu virtu telur kærunefndin ekki tilefni til að gera athugasemdir við störf umsjónarmanns.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. skal umsjónarmaður eins fljótt og auðið er eftir að kröfulýsingarfrestur er liðinn gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Frumvarpið skal samið í samráði við skuldara.

Í máli þessu telur umsjónarmaður að kærandi hafi ekki sinnt tilskildu samráði við hinn fyrrnefnda þar sem kærandi hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort leita ætti nauðasamnings til greiðsluaðlögunar og eftir atvikum greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna, sbr. 18. gr. lge. Kærandi mótmælti því ekki að hann hafi látið undir höfuð leggjast að svara umsjónarmanni, en í gögnum málsins kemur fram að hann kveðist ekki hafa verið tilbúinn til að taka afstöðu um framangreint á þeim tíma sem umsjónarmaður óskaði eftir.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. verður frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun ekki samið nema í samráði við skuldara og er ljóst að atbeina hans er þörf til að svo megi verða. Í 1. mgr. 18. gr. lge. er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla laganna ekki tekist þá geti skuldari lýst því yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar og eftir atvikum greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Atbeini skuldara er nauðsynlegur til að beina málinu í framangreindan farveg takist samningar ekki við kröfuhafa. Kærandi svaraði ekki ítrekuðum fyrirspurnum umsjónarmanns um afstöðu sína til þess hvort hann vildi neyta þeirra úrræða sem tilgreind eru í 18. gr. lge. Af þeim sökum telur kærunefndin ljóst að skort hafi á samstarfsvilja hans í málinu.

Í ljósi þess er að framan greinir verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þessa staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum